Leita á síðunni:

 

"Svarta pakkhúsið" á Flateyri flytur búferlum

- 08/12/2011

Vestfirskir verktakar fengu á dögunum það skemmtilega verkefni að flytja elsta hús Flateyrar "Svarta pakkhúsið" um set. Við sameiningu Ísafjarðar, Flateyrar og Suðureyrar eignaðist Ísafjarðarbær húsið. Undanfarin ár hefur Minnjasjóður Önundarfjarðar unnið ötullega að því að finna pakkhúsinu nýtt hlutverk. Fyrirhugað er að húsið verði sýningarhús utan um harðfisk- og skreiðarverslun á Íslandi og er flutningurinn fyrsta skrefið í að það verði að veruleika. Flutningurinn var vel undirbúinn og gekk vel þrátt fyrir smá éljagang.

Í samtali við Jóhönnu Kristjánsdóttur, Flateyri, kom fram að "Svarta pakkhúsið" sem í matsgerðum ber nafnið Fiskgeymsluhúsið var byggt árið 1867 af Hjálmari Jónssyni verslunarmanni til geymslu á saltfiski og stóð fyrir aftan verslunarhúsnæði sem hann átti og rak. 1883 eignaðist Ásgeirsverslun húsið og var í eigu hennar til ársins 1918 þegar sameinuðu íslensku verslanirnar tóku við rekstrinum. Framan á húsinu er skilti þar sem ritað er bæði á íslensku og dönsku "Sameinuðu Íslensku Verzlanirnar" og er frá þeim tíma. Í kringum 1925 eignaðist Kaupfélag Önfirðinga bæði verslunina og fiskgeymsluhúsið. Árið 1956 flutti Kaupfélagið í nýtt verslunarhúsnæði ofar í götunni og hefur Svarta pakkhúsið verið notað til ýmissa hluta síðan.