Leita á síðunni:

 

Endurbætur Litlabæjar langt komnar

- 02/07/2007
Litlibær í Skötufirði
Litlibær í Skötufirði

Unnið er á fullu við að koma Litlabæ í Skötufirði í upprunalegt horf. Bærinn er í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Kristján Kristjánsson, bóndi í Hvítanesi, segir að húsið verði að mestu leyti klárað í sumar. Það eru Vestfirskir verktakar ehf. sem sjá um framkvæmdirnar.

Fjölskylda Kristjáns gaf Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu og endurbyggingar og stendur til að þar verði sýning um líf hins íslenska útvegsbónda. Búið er að klára húsið að utan en töluverð vinna er eftir innandyra og segir Kristján að verkið hafi gengið hægt vegna peningaskorts en nú séu horfur á að nægt fjármagn sé til að klára endurbygginguna.

„Eftir hálfan mánuð verður ættarmót á Litlabæ. Þar munu koma saman tvö hundruð afkomendur afa míns og ömmu, þeirra Finnboga Péturssonar og Soffíu Þorsteinsdóttur sem bjuggu á Litlabæ“, segir Kristján.


Jón Sigurpálsson, safnvörður Byggðasafns Vestfjarða, segir að Byggðasafnið og Þjóðminjasafnið vinni saman að uppbyggingu Litlabæjar. Aðkoma Byggðasafnsins er fyrst og fremst að koma upp áðurnefndri sýningu um líf útvegsbænda fyrir um 100 árum. Jón segir að vonir standi til að sýningin verði sett upp næsta sumar.

Tekið af bb.is