Leita á síðunni:

 

Framkvæmdir við iðnaðarhús á Langeyri ganga vel

- 14/09/2005
Uppbygging á Langeyri
Uppbygging á Langeyri
« 1 af 2 »
Framkvæmdir við byggingu tveggja iðnaðarhúsa á Langeyri sem Vestfirskir verktakar byggja fyrir Súðavíkurhrepp eru á áætlun. „Verkið hefur gengið vel, við erum búnir að setja stálgrindurnar upp og erum nú að hefjast handa við setja upp einingarnar. Að því loknu verður farið í framkvæmdir innandyra í öðru húsinu sem mun hýsa áhaldahús hreppsins og slökkviliðsstöð en enn er óákveðið undir hvað hitt húsið verður nýtt“, segir Garðar Sigurgeirsson hjá Vestfirskum verktökum. Iðnaðarsvæði hefur verið skipulagt á Langeyri sem er skammt innan við íbúabyggðina í Súðavík. Verkinu á að vera lokið 1. október og segir Garðar að það eigi að standast.

(Tekið af bb.is)

Fyrsta hús Vestfirskra verktaka risið á Skeiði

- 05/09/2005
Fyrra húsið er risið
Fyrra húsið er risið
Á föstudag var risi nýs íbúðarhúsnæðis við Grenilund á Skeiði fagnað. Eigendur hússins eru Vestfirskir verktakar ehf sem byggðu það til sölu. „Húsið er að verða fokhelt og svo verður unnið áfram í því fram eftir hausti.

Þá erum við að byrja á öðru húsi á Skeiði sem má segja að sé nú þegar selt. Því húsi skilum við um áramótin“, segir Sveinn Ingi Guðbjartsson, húsasmiður og einn eigenda Vestfirskra verktaka.

(Tekið af bb.is)

Vestfirskir verktakar stækka skrifstofur Vegagerðarinnar

- 10/08/2005
Hús Vegagerðarinnar á Dagverðardal
Hús Vegagerðarinnar á Dagverðardal
« 1 af 2 »
Vegagerðin hefur gengið frá samningum við Vestfirska verktaka ehf. á Ísafirði um stækkun á skrifstofuhúsnæði stofnunarinnar á Dagverðardal í Skutulsfirði. Um er að ræða 110 fermetra og 373 rúmmetra viðbótarhúsnæði. Samningar voru gerðir í kjölfar útboðs þar sem Vestfirskir verktakar voru lægstir en tilboð þeirra var að upphæð rúmar 23,8 milljónir króna.

Önnur fyrirtæki sem buðu í verkið voru Spýtan ehf. sem bauð rúmar 24,4 milljónir og Ásel ehf. sem bauð tæpar 25,6 milljónir króna. Kostnaðaráætlun var rúmar 22,8 milljónir króna og var því tilboðið sem tekið var 4,4% yfir áætlun. Umsvif á skrifstofum Vegagerðarinnar á Ísafirði hafa aukist nokkuð á liðnum árum eftir að hluti af símsvörun þjónustudeildar stofnunarinnar var flutt til Ísafjarðar fyrir nokkrum árum.

(Tekið af bb.is)

Eina sérhæfða geymsluhúsnæðið fyrir fornmuni á landinu

- 22/12/2004
Geymsluhúsnæði
Geymsluhúsnæði
« 1 af 3 »
Hafin er bygging hins nýja sýningar- og geymsluhúss Byggðasafns Vestfjarða í Neðstakaupstað á Ísafirði. Byggt verður sérhæft geymslusvæði í suðurenda hússins sem er u.þ.b. einn þriðji hluti af flatarmáli þess. „Að verki loknu verður þetta eina geymsluhúsnæðið fyrir fornmuni á landinu og mun uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til vörslu á fornminjum. Til dæmis verður þar raka- og hitastilling. Við vonum að til þess komi að byggðasafnið fái verkefni út á þetta eins og t.d. að geyma fornmuni fyrir Þjóðminjasafnið“, segir Björgmundur Örn Guðmundsson, formaður byggingarnefndar hússins.

Vestfirskir verktakar sjá um verkið og hófust framkvæmdir í síðustu viku. „Þetta er svona rétt að fara af stað en verkinu á að vera fulllokið 20. maí. Þá ættu Vestfirðingar að vera komnir með mjög frambærilegt hús til vörslu og varðveitingar á gömlum munum“, segir Hermann Þorsteinsson hjá Vestfirskum verkstökum.

(Tekið af bb.is)