Leita á síðunni:

 

Fjórar hestakonur standa fyrir byggingu nýs hesthúss í Engidal

- 24/08/2004
Hesthús í Engidal
Hesthús í Engidal
Framkvæmdir á nýju hesthúsi í Engidal við Ísafjörð hófust um síðustu mánaðamót en fjórar hestakonur standa fyrir þeim. „Vestfirskir verktakar eru nú að byggja grunninn en svo ætlum við að reisa húsið, sem er einingahús, sjálfar“, segir Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, dýralæknir og ein af hestakonunum.

Áætlað er að húsið verði tekið í notkun í desember. „Hestarnir fara nú út í haga og verða fram að jólum og við stefnum að því að húsið verði tilbúið fyrir þann tíma“, segir Sigríður. Húsið mun rýma 14 hesta, með hnakkageymslu, gerði og lítilli hlöðu. „Þetta mun taka tíma en þetta á eftir að verða gott hesthús“, segir Sigríður. Auk hennar standa Auður Björnsdóttir, Árný Herbertsdóttir og María Hallgrímsdóttir fyrir framkvæmdunum.

(Tekið af bb.is)

Múrklæðning Gagnfræðaskólans endurnýjuð

- 01/07/2004
Gagnfræðaskólinn
Gagnfræðaskólinn
Framkvæmdir standa yfir við húsakynni Grunnskólans á Ísafirði en verið er að endurnýja múrklæðningu Gagnfræðaskólahússins við Austurveg. Vestfirskir verktakar eru þessa dagana að hreinsa húsið að utan en síðan verður það múrað upp á nýtt.

Að sögn Sigurðar Mar Óskarssonar, bæjartæknifræðins Ísafjarðarbæjar, hefur verkið gengið vel en samkvæmt áætlun á því að vera lokið 20. ágúst, áður en skólahald hefst að nýju.

(Tekið af bb.is)

Uppsteypu fyrsta hússins á Tunguskeiði að ljúka

- 10/05/2004
Grenilundur 7
Grenilundur 7
Fyrsta húsið á Tunguskeiði, nýju íbúðahverfi á Ísafirði, er óðum að rísa. Vestfirskir verktakar voru í dag að steypa upp húsið sem stendur við Grenilund 7. Notaðir eru svokallaðir plastkubbar til þess að steypa í staðinn fyrir hefðbundin mót. Að því loknu verður húsið einangrað að utan og að innan. Húsið verður 170 fermetrar með 10 fermetra sólskála og 30 fermetra bílsskúr. Áætlað er að ljúka við steypuvinnu í dag.

Að sögn Hermanns Þorsteinssonar, hjá Vestfirskum verktökum, verða tvö hús reist í sumar og jafnvel fleiri ef áhugi er til staðar. „Alltaf þegar fólk sér hreyfingu á hlutunum á Tunguskeiði er töluvert spurt um húsin", segir Hermann og hvetur áhugasama um að hafa samband við Vestfirska verktaka.

(Tekið af bb.is)

Vestfirskir verktakar ehf. stofnaðir

- 31/10/2003
Eiríkur, Garðar, Sveinn Ingi og Hermann handsala samninginn
Eiríkur, Garðar, Sveinn Ingi og Hermann handsala samninginn
Stofnað hefur verið nýtt byggingafyrirtæki á Ísafirði, Vestfirskir verktakar ehf., þar sem rennur saman starfsemi þriggja fyrirtækja. Þá mun starfsemi Eiríks og Einars Vals hf. flytjast til Hafnarfjarðar. Stofnendur hins nýja fyrirtækis eru Sveinn Ingi Guðbjörnsson sem starfað hefur hjá Eiríki og Einari Val hf., Garðar Sigurgeirsson sem rekið hefur GS trésmíði í Súðavík og Hermann Þorsteinsson sem rekið hefur fyrirtækið Múrkraft á Ísafirði.

Stjórnarformaður hins nýja fyrirtækis er Sveinn Ingi Guðbjörnsson og framkvæmdastjóri Garðar Sigurgeirsson. Hið nýja fyrirtæki hefur fest kaup á verkstæðishúsi Eiríks og Einars Vals hf. á Skeiði þar sem höfuðstöðvar hins nýja fyrirtækis verða.

Að sögn Sveins Inga Guðbjörnssonar mun fyrirtækið taka yfir starfsemi Múrkrafts og GS trésmíði og auk þess það tekur einnig við þeim verkefnum og þjónustu sem Eiríkur og Einar Valur hf. hafa haft með höndum hér um slóðir. „Okkar ætlun er byggja upp alhliða verktakafyrirtæki í byggingastarfsemi hér um slóðir og við erum mjög bjartsýnir“ sagði Sveinn Ingi. Starfsmenn fyrirtækisins verða 10 talsins í fyrstu.

(Tekið af bb.is)