Unniđ á fullu inni í göngunum
- 29/06/2010
Framkvæmdir við Bolungarvíkurgöng ganga vel. „Við erum nú að vinna í uppsetningu vatnsklæðningar og lagningu fráveituröra. Við erum svona ívíð á eftir áætlun en verið er að vinna á fullu í innivinnu í göngunum,“segir Rúnar Ágúst Jónsson, staðarstjóri Ósafls sem annast framkvæmdirnar. Samkvæmt áætlun eiga göngin að opna fyrir almenning 15. júlí í ár. Ósafl hf., mun sjá um alla vinnu við klæðningar og fráveitulagnir. Rafskaut ehf á Ísafirði sér um rafmagnsvinnu í göngunum og standa þær fram á sumar. Vestfirskir verktakar hafa séð um öll steypt mannvirki sem tengjast göngunum, svo sem brýr og vegaskála. „Við höfum lagt okkur í lima við að fá Vestfirðinga í störfin og hefur samstarfið bæði við heimamenn og verkkaupa gengið mjög vel,“ segir Rúnar.Göngin verða 8,7 metra breið og 5,1 kílómetri að lengd. Einnig er verið að byggja um 310 metra langa steinsteypta vegskála, og 3 kílómetra langa vegi og tvær 15 metra langar steinsteyptar brýr. Kostnaður við göngin er áætlaður um 5 milljarðar króna.
Tekið af bb.is